Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 533/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 533/2023

Mánudaginn 22. janúar 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 6. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. október 2023, um að synja umsóknum hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 20. júní 2023, 3. júlí 2023 og 23. ágúst 2023, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júní til 31. ágúst 2023. Umsóknum kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 4. október 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 5. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð vegna bifreiða sem séu skráðar á hans nafn. Um sé að ræða bifreiðar sem séu ekki lengur í eigu kæranda en þremur hafi verið eytt í Vöku fyrir nokkrum árum og ein hafi verið tilkynnt stolin. Kærandi geti komið með staðfestingu á því. Kærandi hafi engin tök á að greiða þessi gjöld og hafi ekki fengið greidda fjárhagsaðstoð síðan í júní 2023. Kærandi hafi misst leiguhúsnæði sitt og búi nú í hjólhýsi með X ára dóttur sinni. Hann sé ekki með neinar tekjur, hvorki fyrir húsnæði né til að kaupa mat og nauðsynjar. Kærandi óski eftir að tillit verði tekið til aðstæðna hans og að bifreiðar sem séu ekki lengur á yfirborði jarðar valdi því ekki að honum sé synjað um fjárhagsaðstoð þrátt fyrir að þær séu enn á hans eignaskrá því hann geti ekki borgað gjöldin til að fá þær afskráðar. 

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára karlmaður frá B. Kærandi hafi flutt til Íslands árið 2018 til að vinna hjá C. Árið 2019 hafi kærandi flutt til B og komið til baka með börnin sín tvö eftir lát móður þeirra. Kærandi eigi son sem sé X ára og dóttur sem sé X ára. Kærandi hafi verið atvinnulaus og þegið fjárhagsaðstoð frá nóvember 2019. Mikil vinnsla hafi verið í máli dóttur hans og málið sé til vinnslu hjá Barnavernd Reykjavíkur. Kærandi hafi fengið styrk á miðstöð Reykjavíkurborgar til að greiða skólamáltíðir og kórgjöld, auk þess sem stuðningsþjónusta (Keðjan) sé komin inn í mál dóttur hans. Samkvæmt greinargerð til áfrýjunarnefndar, dags. 24. ágúst 2023, hafi kærandi búið ásamt dóttur sinni á almennum leigumarkaði og hafi ekki greitt húsaleigu til lengri tíma. Samkvæmt upplýsingum frá félagsráðgjafa kæranda búi hann nú ásamt dóttur sinni í hjólhýsi.

Þann 20. júní 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 30. júní 2023 sem hafi verið synjað 17. júlí 2023. Þann 3. júlí 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 31. júlí 2023 sem hafi verið synjað þann 16. ágúst 2023. Þann 23. ágúst 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2023 til 31. ágúst 2023 sem hafi verið synjað þann 25. ágúst 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 4. október 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. ágúst 2023 skv. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um það hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda.

Í 7. mgr. 12 gr. um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili, á eignir sem nýtast geta til framfærslu á hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.“

Kærandi eigi eignir umfram það sem rúmist innan 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þegar kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. maí 2023 til 31. maí 2023 hafi komið í ljós á skattframtali kæranda að hann ætti átta bifreiðar. Honum hafi verið ráðlagt að afskrá eða selja sjö af bifreiðunum þar sem hann mætti einungis eiga eina bifreið til eigin nota, sbr. 7. mgr. 12. gr. reglna. Kærandi hafi í kjölfarið farið með þrjár bifreiðar til förgunar í Vöku. Kæranda hafi verið gert að greiða samtals 165.000 kr., eða 55.000 kr. fyrir hverja bifreið. Kærandi hafi ekki átt nægilega mikið fjármagn til að greiða fyrir framangreint og því hafi ekki verið hægt að ljúka afskráningarferlinu til að fá skilavottorð hjá Vöku. Vegna framangreinds hafi verið ákveðið að veita kæranda undanþágu á greiðslu fjárhagsaðstoðar til framfærslu fyrir tímabilið 1. maí 2023 til 31. maí 2023, til útgreiðslu í júní 2023, svo hann gæti lokið afskráningarferlinu hjá Vöku. Kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu greitt í júní 2023 en hafi ekki lokið afskráningarferlinu líkt og honum hafi verið gert að gera.

Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð síðan fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. ágúst 2023 þrátt fyrir að vera með of margar bifreiðar í sinni eigu. Í greinargerð til áfrýjunarnefndar komi fram að honum hafi verið veitt undanþágu á fjárhagsaðstoð sem hafi verið greidd til hans í júlí. Um misritun sé að ræða en í greinargerð hafi átt að standa júní.

Kærandi hafi þann 20. júní 2023 sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 30. júní 2023. Í umsóknarferlinu hafi kærandi fengið upplýsingar frá miðstöð Reykjavíkurborgar um að hann væri samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu með átta bifreiðar skráðar á sig, þar af sex sem væru með stöðuna úr umferð en hann hafi fengið upplýsingar um að hann þyrfti að afskrá bifreiðarnar eða selja þær. Þá hafi hann verið með tvær bifreiðar til viðbótar með stöðuna í lagi. Ráðgjafi á miðstöð Reykjavíkurborgar hafi upplýst kæranda að hann mætti einungis eiga eina bifreið til umráða og að hann þyrfti að skila inn viðeigandi gögnum fyrir 15. júlí 2023 sem sýndu að hann væri búinn að afskrá eða selja þær bifreiðar sem væru umfram eina bifreið sem umsækjendur megi eiga til umráða, sbr. 7. mgr. 12. gr. reglna. Kærandi hafi hins vegar ekki gert það og hafi því verið synjað um fjárhagsaðstoð til framfærslu þann 17. júlí 2023 fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 30. júní 2023.

Þann 3. júlí 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 31. júlí 2023. Í umsóknarferlinu hafi kærandi fengið þær upplýsingar frá ráðgjafa á miðstöð Reykjavíkurborgar að hann væri með átta bifreiðar skráðar á sig samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu en þyrfti að afskrá eða selja sjö af þeim bifreiðum þar sem hann mætti einungis eiga eina bifreið til umráða. Þá hafi honum einnig verið tilkynnt að umsókn hans yrði synjað ef hann myndi ekki skila inn viðeigandi gögnum sem staðfestu að hann væri búinn að ganga frá framangreindu fyrir 15. ágúst 2023. Kærandi hafi ekki sinnt því og umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júlí 2023 til 31. júlí 2023 hafi verið synjað þann 16. ágúst 2023.

Kærandi hafi þann 23. ágúst 2023 sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2023 til 31. ágúst 2023. Í umsóknarferlinu hafi kærandi fengið upplýsingar frá ráðgjafa á miðstöð Reykjavíkurborgar um að hann væri með fimm bifreiðar skráðar á sig sem þyrfti að afskrá eða selja, ella yrði umsókn hans synjað. Kærandi hafi ekki sinnt því og umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2023 til 31. ágúst 2023 hafi verið synjað þann 25. ágúst 2023.

Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi óskað eftir uppfærðu eignastöðuvottorði frá Samgöngustofu fyrir fund sinn þann 4. október 2023. Á eignastöðuvottorði Samgöngustofu, dags. 3. október 2023, komi fram að kærandi væri með fimm bifreiðar skráðar á sig, tvær skráðar með stöðuna í lagi og þrjár skráðar með stöðuna úr umferð. Þá hafi legið fyrir tilkynning frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 25. september 2023, um að ein af bifreiðum kæranda með stöðuna í lagi á eignastöðuvottorði Samgöngustofu, dags. 3. október 2023, hefði verið skráð stolin. Þrátt fyrir framangreinda tilkynningu um stolna bifreið hafi fjórar bifreiðar verið skráðar á kæranda þegar áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 4. október 2023. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg skuli umsækjendum sem eigi eignir umfram eina bifreið til eigin nota vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur umsækjanda séu lægri en grunnfjárhæð. Kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um að afskrá eða selja þær bifreiðar sem væru umfram eina bifreið sem hann mætti eiga samkvæmt áðurnefndum reglum. Þá hafi hann fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. maí 2023 til 31. maí 2023 til að aðstoða við að greiða Vöku og ljúka framangreindu afskráningarferli.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. ágúst 2023 á grundvelli 7. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna miðstöðvar Reykjavíkurborgar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreint tímabil. Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að ekki væru fyrir hendi nægjanlegar rökstuddar ástæður að baki því að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir áðurnefnd tímabil.

Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. ágúst 2023.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 7. mgr. 12. gr. reglnanna kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili eigi eignir sem nýst geta til framfærslu eigi hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

Umsóknum kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann væri með nokkrar bifreiðar skráðar á sig en ekki væri heimilt að eiga nema eina bifreið. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um að afskrá eða selja þær bifreiðar sem væru umfram þá einu sem hann mætti eiga samkvæmt framangreindum reglum borgarinnar. Kærandi hefur vísað til þess að hann geti ekki fengið bifreiðarnar skráðar af sínu nafni vegna skuldar við Vöku hf. og lagt fram staðfestingu þess efnis frá félaginu.

Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að aðrar eignir en íbúðarhúsnæði og bifreið sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að eignum sér til framfærslu.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála benda gögn málsins ekki til þess að Reykjavíkurborg hafi rannsakað sérstaklega hvort hver og ein bifreið sem skráð var á kæranda þegar hann lagði inn umsóknir um fjárhagsaðstoð gæti nýst honum til framfærslu með einhverjum hætti en ýmist var um að ræða bifreiðar skráðar úr umferð, í lagi eða afskráðar, sbr. fyrirliggjandi yfirlit frá Samgöngustofu, dags. 17. ágúst 2023. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 4. október 2023, um að synja umsóknum A, um fjárhagsaðstoð, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum